Fróðleikspunktar um sögu og þróun
Eden Alternative® eru alþjóðleg samtök sem hafa að markmiði að efla persónumiðaða menningu við umönnun og þjónustu aldraðra og yngri einstaklinga sem þurfa stuðning við að lifa sínu lífi dags daglega. Hugmyndafræðin tilheyrir þróun nýrrar menningar í öldrunarþjónustunni sem hefur haft mikil áhrif á þær breytingar sem orðið hafa á viðhorfum til aldraðra og uppbyggingar þjónustunnar síðustu áratugina.
Eden Alternative® hugmyndafræðin hóf vegferð sína upp úr 1990 sem þriggja ára þróunarverkefni er hlaut styrk til að bæta gæði umönnunar og þjónustu við einstaklinga sem voru með heilabilun og bjuggu á Chase Memorial hjúkrunarheimilinu í New York. Dr. Bill Thomas þáverandi yfirlæknir hjúkrunarheimilisins ásamt konu sinni Jude stofnuðu síðan Eden Alternative®.
Fjöldi fólks með mismunandi bakgrunn, reynslu og faglega þekkingu hefur frá upphafi komið að þróun kennsluefnis og starfsemi Eden Alternative. Hugmyndafræðin hefur breiðst út víða um heiminn á þeim áratugum sem sem hún hefur verið starfandi og er víða innan og utan Bandaríkjanna svo sem í Danmörku, Kanada, Englandi, Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Ástralíu, Suður Afríku og Mauritius eyju.
Á Íslandi hófst innleiðing Eden Alternative® af alvöru með því að haldið var þriggja daga námskeið á Akureyri 2008 með Jane Verity sem var sú fyrsta sem kenndi um Eden í Evrópu og aðallega í Danmörku eftir að upphafsmaðurinn Bill Thomas var á ráðstefnu í Kaupmannahöfn 2004.
Að námskeiðinu á Akureyri stóðu stjórnendur Öldrunarheimila Akureyrar og þátttakendur voru af öllu landinu þar á meðal af Grundarheimilunum. Eftir námskeiðið á Akureyri hófu Ö.A. og Grundarheimilin að innleiða Eden Alternative hugmyndafræðin. Fyrsta vottaða Eden heimilið á Íslandi var Ö.A. árið 2013, síðan kom Grundarheimilið, Mörk 2017. Fleiri vottuð Eden heimili hafa bæst í hópinn, Ás í Hveragerði og Brákarhlíð í Borgarnesi og enn fleiri eru að vinna með Eden Alternative hugmyndafræðina.
Þriggja daga Eden Alternative námskeið hafa verið haldin á vegum Eden Ísland frá 2012 og eru þátttakendur á námskeiðunum orðnir yfir 1000 talsins, flestir starfandi á hjúkrunarheimilum en einnig viðdagvist/dagþjálfun aldraða, félagsstarf og heimaþjónustu.
Markmiðið er að skapa menningu, þjónustu og umhverfi þar sem markvisst er unnið gegn einmanaleika, leiða og vanmætti þeirra er þarfnast þjónustu, aðstandenda þeirra og starfsfólks,
Upphaflega var Eden ætlað fyrir umönnun, þjónustu og umhverfi á hjúkrunarheimilum en hefur þróast sem góður grunnur hvar sem umönnunar og þjónustu er þörf, svo sem í heimahúsum og dag þjónustustarfsemi.
Eden hugmyndafræðin hentar fólki á öllum aldri sem býr við færniskerðingu af ýmsum ástæðum og þarfnast stuðnings og umönnunar til að geta lifað lífinu dags daglega. Persónumiðuð menning leggur áherslu á sjálfræði og lífsgæði þeirra sem njóta þjónustu sem og þeirra sem koma að umönnun þeirra.
Nafnið Eden varð fyrir valinu sem tákn um gróskumikinn garð með margbreytilegu lífi. Á Íslandi muna margir eftir Eden í Hveragerði þar sem ávallt var gaman að koma og skoða fjölbreyttan gróður og dýr. Þar var hægt að kaupa nýræktað grænmeti, eitthvað gott að borða eða fá sér ís, skoða listasýningar og hlusta á tónlist í notalegu umhverfi. Víða eru til ”Skynjunargarðar” þar sem fólk getur komið og horft á fallegan gróður, lyktað og hlustað. Verið er að útbúa slíkan garð í Ási í Hveragerði. Orðið „Alternative“ fylgir á eftir Eden sem tákn um annað sem getur komið í staðinn fyrir það sem er ef við viljum bæta og breyta í takt við nýja menningu, nýja kynslóð og nýja þekkingu.
Hugmyndafræðin byggir á því viðhorfi að einstaklingurinn vaxi og þroskist alla ævi og þurfi að skapa þeim sem búa við heilsubrest og færniskerðingu tækifæri til að þroskast, að vera viðurkenndur, verðmætur og virkur þátttakandi í samfélaginu. Það er unnið með ferli sem leiðir af sér aukið sjálfræði og lífsgæði aldraðra, aukna starfsánægju starfsmanna og betri samskipti og samvinnu milli þeirra sem koma að og þeirra sem þiggja ummönnun.
Nánar er hægt að lesa um Eden Alternative og þróun nýrrar menningar öldrunarþjónustunnar í bókinni NÝ Menning í öldrunarþjónustu eftir Sigrúnu Huld Þorgrímsdóttur.